top of page

Dagskrá Plöntutíðar 2021 lítur dagsins ljós!

Plöntutíð

10. ágú. 2021

Í ár verða vinnustofur og fjöldi sviðsverka sýnd í óhefðbundnum rýmum víðsvegar um Reykjavík og Kópavog.

Plöntutíð verður í annað sinn dagana 3. - 5. september næstkomandi. Hátíðin var stofnuð sem vettvangur fyrir listamenn sem fjalla um náttúruna og gera tilraunir til að fara handan við mannhverfa sviðslistasköpun.

Á Plöntutíð verða vinnustofur og fjöldi sviðsverka sýnd í óhefðbundnum rýmum víðsvegar um Reykjavík og Kópavog. Dagskránni verður formlega hleypt af stað með gjörningi í streymi fyrir dýr sem heitir ,,Takk fyrir að halda mér á lífi” eftir Wiolu Ujazdowska. Fyrripartur laugardagsins er tileinkaður ungviðinum og tengslaræktun fjölskyldunnar. Hljóðgangan BRUM eftir sviðslistahópinn Trigger Warning fer af stað í Heiðmörk, Plöntuleikhús vinnustofa í Gerðarsafni með Lóu Björk Björnsdóttur stendur frá eitt til þrjú og Unglingurinn í skóginum verður flutt af unglingum leiddum af Ásrúnu Magnúsdóttur í Öskjuhlíð klukkan fjögur. Um kvöldið taka Jakub Ziemann og Yelena Arakelow á móti fólki í matarupplifunarverkinu Kæra Gulrót, fyrirgefðu að ég gleymdi þér í kuldanum. Eva Halldóra Guðmundsdóttir og Vigfús Karl Sigfússon frumflytja þá hljóðverkið Plöntusnúður fyrir djammþyrstar plöntur í tóma rýminu í Skeljanesi. Á lokadegi hátíðarinnar verður boðið upp á Útþensluferð um Reykjanesið með Mannyrkjustöð Reykjavíkur og Plöntuleikhús í Grasagarði Reykjavíkur. Að lokum gefst forvitnum færi á að fara í æsandi ferðalag í Náttúruhneigð með Írisi Stefaníu Skúladóttur og nálgast jörðina sem elskhuga sinn.

Dagskrána má finna á plontutid.is.

Plöntutíð er styrkt af Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka, Borgarsjóði Reykjavíkur, Lista- og menningarráði Kópavogs og Barnamenningarsjóði. Takk kærlega!!!

--- Ráðstafanir vegna COVID-19 Hátíðin verður haldin með einum eða öðrum hætti og allir viðburðir settir upp með tilliti til sóttvarna og tilmælum almannavarna. Flestir viðburðir fara fram utandyra og áhorfendur eru í litlum hópum fólks sem tengist. Á þeim örfáu viðburðum innandyra og þar sem erfiðara er hægt að viðhalda fjarlægðar takmörkunum verður grímuskylda. Fyrir nánari upplýsingar má hafa samband við plontutid@gmail.com.

bottom of page