top of page

Náttúruhneigð 23.júlí með Írisi Stefaníu Skúladóttur

Plöntutíð

29. jún. 2022

Fyrsti viðburður sumarsins. Komdu í æsandi ferðalag með Írisi og leyfðu þér að upplifa jörðina sem elskhuga þinn.

Fyrsti viðburður Plöntutíðar í sumar verður laugardaginn 23.júlí kl 14:00 við Esjurætur.

Það er verkið Náttúruhneigð eftir Írisi Stefaníu Skúladóttur.


Að ganga á heitum moldarstíg. Að leggjast í daggar blautt gras. Að sitja klofvega á sléttum og sterkum trjádrumbi og finna fyrir kraftinum. Að láta sig fljóta á spegilsléttu vatni. Að fara í sturtu með öllum pottaplöntunum og finna fyrir þeim strjúkast við kálfann þinn. Að þrýsta hendinni niður í þurran heitan mosann. Að leyfa lækjarsprænu að leika um líkama þinn. Að finna lyktina að blóðbergi. Að elska jörðina. Að verða ástfangin af náttúrunni og verða eitt með henni.


Komdu í æsandi ferðalag með Írisi og leyfðu þér að upplifa jörðina sem elskhuga þinn.


Miðaverð er 3500 kr og má panta miða með því að senda tölvupóst á netfangið irisstefania@gmail.com.


Íris er sviðslistakona og kúrator sem hefur unnið með líkama og líf kvenna í verkum sínum. Hún leggur áherslu á unað, tabú, skömm og þrár. Ákvörðunarréttur kvenna til að gera það sem þær vilja með líkama sinn og líf sitt hefur verið útgangspunkturinn í verkum Írisar. Hún hefur meðal annars safnað og gefið út sjálfsfróunarsögur kvenna og haldið söguhringi þar sem sögur sem tengjast efninu eru sagðar. Gert útvarpsleikhúsverk um eldri konur og rétt þeirra til að vera kynverur og verk um konur sem kjósa að eignast ekki börn sem var flutt á Lókal 2021. Á off venue dagskrá sömu hátíðar hélt hún einnig söguhring um unaðslegar fæðingar (e. Orgasmic birth).Verk hennar á Plöntutíð 2022, Náttúruhneigð, einblínir á öll kyn, á mannkynið í heild sinni og samband þess við náttúruna.




Auka innsýn

Náttúruhneigð eða Jarðkynhneigð byggir á hugmyndinni um náttúruna sem elskhuga og hvetur fólk til að horfa á jörðina sem ástvin í stað auðlindar sem hægt er að notfæra sér. Hægt væri að snúa dæminu við og velta því fyrir sér hvernig það væri að hugsa um maka sinn sem auðlind í stað elskhuga. Vissulega er margt fallegt sem við tengjum við orðið auðlind. Við sjáum fyrir okkur fallega og gjöfula náttúru þegar við tölum um náttúruauðlind. En auðlind gefur alltaf til kynna eitthvað sem hægt er að nota sér í hag, hvort sem það er til þess að dást að eða til að virkja, og hvetur ekki endilega til þess að gefa á móti. Náttúrunnar vegna væri því heppilegra ef við myndum koma fram við hana sem elskhuga sem við virðum og elskum og viljum sjá vaxa og dafna.


Konurnar á bakvið hugtakið og hreyfinguna (e. sexecology eða ecosexuality) eru þær Beth Stephens og Annie Sprinkle. Listakonur sem vildu gera umhverfis aktívisma skemmtilegri með alls kyns gjörningum, húmor og sex positivity.


Hlökkum til að taka á móti ykkur!





---

Plöntutíð er ný sviðslistahátíð. Hún var stofnuð sem vettvangur fyrir listamenn sem takast á við vistmiðjaða dramatúrgíu og sviðslistasköpun. Plöntutíð er í ár styrkt af Borgarsjóði Reykjavíkur og Lista- og menningarráði Kópavogs.

bottom of page